Bríet Bjarnhéðinsdóttir
Forsíða ] [ Bríet Bjarnhéðinsdóttir ] Stefnumál ] Þróun kosningaréttar ] Verkefni ] Heimildaskrá ]

 

Upp

Bríet Bjarnhéðinsdóttir fæddist að Giljá í Vatnsdal, Austur-Húnavatnssýslum 27. september 1856. Foreldrar hennar voru Bjarnhéðinn Sæmundsson og Kolfinna Snæbjarnardóttir. Átti hún þrjú systkin, Bjarna, Guðrúnu og Sæmund.

Árið 1880 fór Bríet á kvennaskólann á Laugalandi í Eyjafirði. Tók hún burtfararpróf þaðan um vorið með eldri deildinni við skólann og var hún hæst á því prófi. Þar sem ekki var meira um skólamenntun fyrir stúlkur á þessum árum þar sem hvorki Latínuskólinn í Reykjavík, prestaskólinn, læknaskólinn né gagnfræðskólinn á Möðruvöllum tóku við konum snéri Bríet sér að barna- og unglingakennslu í Þingeyjarsýslu.

Haustið 1887 fluttist Bríet alfarið til Reykjavíkur. Hún byrjaði að kenna  börnum í heimahúsum þar sem konur voru enn ekki farnar að kenna við barnaskólana. Þá um veturinn, nánar tiltekið 28. desember hélt Bríet svo sinn fyrsta fyrirlestur sem var líka fyrsti fyrirlestur sem kona hélt á Íslandi og kallaðist hann Fyrirlestur um hagi og rjettindi kvenna. Þóttu það mikil tíðindi hér á landi að kona skildi voga sér að halda fyrirlestur en honum var vel tekið af blöðum og áheyrendum.

Haustið 1888 giftist hún þáverandi ritstjóra Fjallkonunnar, Valdimar Ásmundssyni. Eignuðust þau tvö börn, Laufeyju og Héðinn.

Árið 1895 stofnaði Bríet fyrsta kvennablaðið hér á landi og nefndist það einfaldlega Kvennablaðið og gaf hún það sjálf út til ársins 1919.

Bríet hafði um langa ævi forustu í baráttu kvenna til náms, kosningaréttar og kjörgengis og opinberra starfa. Hún var fyrsti formaður Kvenréttindafélags Íslands, þ.e. frá árinu 1907-1928. Hún var um skeið bæjarfulltrúi í Reykjavík.

Bríet lést í Reykjavík 1940.

 

 

Þessi vefur er unninn af nemendum í sagnfræðivali í KHÍ vormisserið 2001. Nemendur eiga höfundarétt á verkefnunum.
Kennari og ábyrgðarmaður Þorsteinn Helgason, umsjón með vefgerð: Þuríður Jóhannsdóttir
Síðast breytt: 08.03.2001